Sagan drýpur af hverju melgresi

Flötin við þriðju holuna á Carnoustie-vellinum.
Flötin við þriðju holuna á Carnoustie-vellinum. AFP

Þegar Reykvíkingurinn Haraldur Franklín Magnús fer á teig í dag á Opna breska meistaramótinu mun hann upplifa nokkuð sem karlkyns kylfinga úti um allan heim dreymir um. Opna breska, eða The Open Championship, er merkilegasta risamótið af þeim fjórum sem fram fara árlega hjá körlunum í golfinu.

Einungis allra hörðustu aðdáendur Masters-mótsins myndu reyna að andmæla þeirri staðhæfingu enda hefur Opna breska verið haldið síðan 1860.

Sagan er því geysilega merkileg og ávallt er mótið haldið á gömlum golfvöllum við sjávarsíðuna. Auk þess hafa allir snjöllustu kylfingar sögunnar leikið á mótinu og því sker það sig frá hinum þremur. Stór fullyrðing en kemur í ljós þegar rykið er dustað af gömlum keppendalistum.

Séð yfir völlinn í Carnoustie og í átt að klúbbhúsinu …
Séð yfir völlinn í Carnoustie og í átt að klúbbhúsinu og bænum. AFP

Golfíþróttin á sér afskaplega merkilega sögu á Bretlandseyjum, en í Skotlandi eru heimildir um golfiðkun á 15. öld. Um miðja öldina var golfiðkun bönnuð, þar sem ungir hermenn þóttu eyða of miklum tíma í golfi í stað þess að æfa bogfimina sem nýttist í hernaði. Hafa bæjarbúar í St. Andrews getað leikið golf í margar aldir á þeirri landareign sem í dag er kölluð Old Course, eða Gamli völlurinn. Nú kann það að koma einhverjum á óvart að þrátt fyrir mikla og glæsilega sögu í St. Andrews var sá ágæti bær ekki vettvangur Opna breska meistaramótsins þegar mótið var sett á laggirnar.

Fyrsta mótið í Prestwick

Fyrstu mótin fóru fram hjá Prestwick-golfklúbbnum, suðvestur af Glasgow. Sá klúbbur hafði formlega verið stofnaður árið 1851, sama ár og Vestfirðingurinn Jón Sigurðsson lét Danina heyra það á Þjóðfundinum. „Old“ Tom Morris hafði vafalaust nokkur áhrif á gang mála. Sá snjalli kylfingur, og hönnuður, fæddist og lést í vöggu golfsins, St. Andrews, en flutti búferlum í millitíðinni til Prestwick. Hannaði hann völlinn og sá um umhirðuna en þegar hann flutti aftur til St. Andrews árið 1863 breytti hann Gamla vellinum í það horf sem við þekkjum í dag.

Sjá greinina í heild sinni og ítarlega umfjöllun um mótið í sérblaði um Opna breska meistaramótið sem fylgir Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert