Haraldur fer seint út

Haraldur Franklín Magnús á teig á Carnoustie í gær.
Haraldur Franklín Magnús á teig á Carnoustie í gær. Páll Ketilsson

Haraldur Franklín Magnús, úr Golfklúbbi Reykjavíkur, fer á teig á Carnoustie í dag um það leyti sem Íslendingar setjast niður í þrjúkaffið. Ráshópur Haraldar er sá þriðji síðasti sem ræstur er út í dag á öðrum degi The Open Championship. 

Haraldur fer á teig klukkan 15:54 að staðartíma í Skotlandi eða klukkan 14:54 að íslenskum tíma. Hann mun því ekki ljúka leik fyrr en á níunda tímanum um kvöldið að staðartíma. 

Hringurinn hjá Haraldi og félögum í gær tók um það bil fimm klukkutíma en hlutirnir ganga ekki alltaf hratt fyrir sig á jafnstórum viðburði og The Open. 

Þegar Haraldur skilar inn skorkorti sínu verður orðið nánast ljóst hvort hann nái niðurskurði keppenda eða ekki en eftir fínt skor í gær á hann ágæta möguleika á því. 

Zander Lombard frá Suður-Afríku leikur með Haraldi í dag eins og í gær en ekki er hróflað við ráshópunum fyrstu tvo dag á móti sem þessu. Lombard lék á fjórum undir pari í gær og var á meðal efstu manna. Fyrir vikið gæti verið nokkur athygli á ráshópi Haraldar í dag fyrir utan þá staðreynd að erlendir fjölmiðlar hafa staldrað við þá staðreynd að Íslendingur sé nú með í fyrsta skipti í langri sögu mótsins. 

Í morgun hefur rignt í Carnoustie og aðstæður því aðeins frábrugnar því sem var í gær en vindurinn er ekki mikill enn sem komið er. Samkvæmt spánni gæti rignt þegar Haraldur fer af stað en ætti að stytta upp um kl 17. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert