Tiger Woods alsæll með hringinn

Tiger Woods á Carnoustie í dag.
Tiger Woods á Carnoustie í dag. AFP

Tiger Woods var brosmildur þegar hann kom til fundar við blaðamenn að loknum þriðja hring sínum á The Open Championship í dag. Tiger lék á 66 höggum sem er fimm undir pari á Carnoustie og er samtals á fimm undir pari í mótinu. 

„Ég spilaði gott golf í dag. Virkilega,“ sagði Tiger og hann var bæði ánægður með sláttinn en einnig púttin á þessum hring. „Mér fannst ég ekki slá slæmt högg fyrr en í upphafshögginu á 18. holunni. Fram að því fannst mér ég hafa vald á því sem ég var að gera. Ég átti auk þess mörg mjög góð pútt í dag og það voru nokkur í viðbót sem hefðu getað ratað rétta leið.“

Tiger sagðist hafa séð hvernig mönnum gekk á fyrri hluta hringsins í dag áður en hann fór á teig og nefndi til dæmis skor Justins Rose sem átti frábæran dag og var á 64 höggum. „Á fyrstu tólf til fjórtán holunum var möguleiki á að vera nokkur högg undir pari vegna þess hversu gott veðrið er. Ég vissi að ég þyrfti að fá fugla til að hanga í efstu mönnum að loknum deginum í dag. Ég tel að mér hafi fyllilega tekist það með því að vera á fimm undir samtals.“

Tiger var um tíma 6 undir pari samtals og var þá í efsta sæti ásamt fleirum. Spurður um hvernig honum hafi liðið að vera í forystunni þegar langt er liðið á risamót í fyrsta skipti í langan tíma. „Mér var ekki kunnugt um að ég væri efstur. Ég taldi að ég væri höggi á eftir á þeim tímapunkti,“ sagði Tiger og þegar hann var spurður um hvort þetta væri hans besta frammistaða á risamóti í langan tíma þá svaraði hann: „Ja ég hef nú ekki tekið þátt í mörgum risamótum á síðustu árum,“ og glotti.

Jafnframt sagði Tiger að hann yrði afslappaður í kvöld þótt hann væri á meðal efstu manna sem sagðist auðvitað vonast til þess að ekki yrðu of margir kylfingar á milli hans og efsta manns eftir daginn í dag.

Spurður um hversu stórt það yrði í hans huga að vinna risamót á ný, hvort sem það myndi gerast á morgun eða síðar, brosti Tiger og sagði: „Ég skil hvað þú ert að reyna að gera en við skulum bara leyfa mér að reyna að komast í slíka stöðu áður en ég svara þessu.“

Útlit er fyrir geysilega skemmtilega baráttu um Silfurkönnuna á morgun. Núverandi meistari Jordan Spieth og meistarinn frá 2015 Zach Johnson eru með forystu þegar þetta er skrifað á 8 undir pari ásamt Kevin Kisner sem var efstur eftir fyrsta hringinn. Breskir kylfingar eru einnig í baráttunni eins og Rory McIlroy og Tommy Fleetwood en þeir fá talsverðan stuðning frá áhorfendum. Báðir eru þeir á 6 undir pari en margt á enn eftir að gerast í dag því síðustu menn fóru ekki á teig fyrr en kl 15 að íslenskum tíma. 

Mjög hægur vindur er úti á vellinum og því er meiri möguleiki á því að fá fugla en alla jafna á Carnoustie. Á fyrstu þremur keppnisdögunum hefur enn ekki blásið að neinu ráði en samkvæmt veðurspá gæti það gerst á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert