Fleetwood reynir að ná Molinari

Francesco Molinari
Francesco Molinari AFP

Mikil spenna er í Dubai þar sem lokamót Evrópumótaraðarinnar á þessu ári er hálfnað. Francesco Molinari og Tommy Fleetwood berjast um efsta sæti peningalistans. 

Fleetwood þarf að vinna mótið til að verða stigameistari. Jafnvel þótt hann geri það þá myndi nægja Molinari að verða í 5. sæti eða ofar því hann er með ágæta forystu á peningalistanum. 

Fleetwood á möguleika á sigri en hann er 8 undir pari eftir tvo hringi. Efstur er Englendingurinn Matt Wallace á 11 undir pari en ekki hafa allir lokið leik. 

Molinari er á samtals 3 undir pari. Hann hefur átt rosalegt ár. Sigraði á Opna breska meistaramótinu og vann alla fimm leiki sína í Rydernum. Saman unnu þeir Molinari og Fleetwood fjóra leiki í Rydernum eða alla leiki sína í fjórbolta og fjórmenningi. 

Margir kunnir kylfingar eru að leika vel í mótinu. Patrick Reed og Danny Willet á níu undir pari, Rory McIlroy á -8, Henrik Stenson á -7, Rafa Cabrera Bello á -6, Sergio Garcia og Lee Westwood á -5. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert