Árið 2020 vinn ég kannski risamót

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir horfir björtum augum á framtíðina þrátt fyrir …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir horfir björtum augum á framtíðina þrátt fyrir erfitt keppnistímabil í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir segir ákveðinn létti fylgja því að hafa ekki náð fullum keppnisrétti í LPGA-mótaröðinni í golfi fyrir næsta keppnistímabil, eftir erfitt en lærdómsríkt tímabil í ár.

Þetta segir Ólafía í viðtali við Golf á Íslandi. Hún verður með takmarkaðan keppnisrétt í LPGA-mótaröðinni á næsta ári eftir að hafa fyrst Íslendinga leikið í mótaröðinni síðustu tvö ár. Hún lék alls á 21 móti á tímabilinu og var meðalskor hennar 0,31 höggi hærra en á síðasta tímabili, en það dugði ekki til að halda fullum keppnisrétti. Þá komst hún heldur ekki í gegnum lokaúrtökumótið fyrir LPGA-mótaröðina fyrir skömmu en Ólafía er ekki svo óánægð með þá staðreynd:

„Niðurstaðan eftir úrtökumótið á LPGA er í raun léttir fyrir mig. Það verður ekki eins mikið álag á næsta tímabili. Ég fæ tíma til að vinna mig úr þessari stöðu. Árið 2018 var árið þar sem ég missti af tækifæri að vera með fullan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. Árið 2020 verður kannski árið þegar ég sigra á risamóti? Framtíðin er björt og ég trúi því að mér séu allir vegir færir þegar ég hef náð tökum á því sem ég þarf að gera. Ég sé þetta alla vega svona fyrir mér, þetta er bara lítil hraðahindrun á löngum ferli þar sem eru endalausir möguleikar. Ég held áfram að klífa fjallið og slípa til þá hluti sem ég þarf að laga. Tölfræðin mín frá LPGA er til skoðunar hjá þjálfarateyminu. Ég veit hvað ég þarf að laga, púttin eru þar efst á forgangslistanum. Til þess að geta púttað vel þarf hausinn að vera í lagi. Ég ætla að byrja á því verkefni – og fá ferska byrjun á tímabilinu,“ segir Ólafía við Golf á Íslandi.

Viðtalið í heild, þar sem Ólafía gerir upp tímabilið 2018, má sjá með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert