Keppt um hundruð milljóna

Jon Rahm hefur leikið vel á árinu og lék fyrsta …
Jon Rahm hefur leikið vel á árinu og lék fyrsta hringinn á 66 höggum. AFP

Lokamótið á Evrópumótaröð karla í golfi er hafið í Dubai og hafa kylfingarnir leikið fyrsta hringinn af fjórum. John Rahm og Tommy Fleetwood byrja báðir vel en þeir eiga möguleika á að hafna í efsta sæti stigalistans og vinna stóra pottinn. 

Fyrir lokamótið er Bernd Wiesberger frá Austurríki efstur á listanum. Hann lék fyrsta hringinn í dag á 70 höggum og byrjaði því ágætlega. Yrði það saga til næsta bæjar ef efsti maður á stigalistanum í lok tímabilsins yrði kylfingur frá skíðaþjóðinni Austurríki. 

Englendingurinn Fleetwood var í 2. sæti listans fyrir lokamótið. Hann lék mjög vel í dag og var á 67 höggum. Fleetwood sigraði á mótaröðinni 2017. 

Jon Rahm frá Spáni var í 3. sæti fyrir mótið. Hann byrjaði enn betur í dag og lék á 66 höggum. 

Frakkinn Mike Lorenzo-Vera lék best á 63 höggum og Rory McIlroy frá N-Írlandi var á 64 höggum. 

Margir þekktir kylfingar byrjuðu ágætlega í mótinu. Rafa Cabrera Bello var á 68 höggum, Justin Rose og Francesco Molinari á 69. 

Til mikils er að vinna eins og iðulega í hæsta gæðaflokki í golfíþróttinni. Fyrir sigurinn í lokamótinu verða greiddar 370 milljónir íslenskra króna en þar að auki fær sá sem verður efstur á mótaröðinni um 250 milljónir. Verði um sama kylfinginn að ræða verður útborgunin því yfir 600 milljónir fyrir "fjögurra daga vinnu". 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert