Gamla ljósmyndin: Norðurlandameistarar

Morgunblaðið/Friðþjófur Helgason

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Myndin er væntanlega tekin í kringum 1990 má þar sjá þrjá kylfinga sem þá kepptu fyrir Golfklúbbinn Keili í Hafnarfirði. 

Lengst er vinstri er Úlfar Jónsson sem kjörinn var Kylfingur aldarinnar um aldamótin. Úlfar varð sex sinnum Íslandsmeistari á sjö árum, 1986 og 1987 og frá 1989 - 1992. Með því að vinna Íslandsmótið sex sinnum jafnaði Úlfar met Björgvins Þorsteinssonar. Árið 2016 sló Birgir Leifur Hafþórsson metið þegar hann varð meistari í sjöunda sinn. 

Fyrir miðju er Björgvin Sigurbergsson sem er fjórfaldur Íslandsmeistari. Björgvin vann 1995, 1999, 2000 og 2007. Íslandsmótið í golfi stendur nú yfir í Mosfellsbæ og þar á dóttir hans, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, titil að verja. 

Lengst til hægri er Guðmundur Sveinbjörnsson. Voru þeir þrír í sveit Íslands sem sigraði býsna óvænt í sveitakeppni á Norðurlandamótinu í Grafarholti árið 1992. Í sveitinni voru einnig Sigurjón Arnarsson, Þorsteinn Hallgrímsson og Jón H. Karlsson. 

Myndin er tekin af hinum reynda ljósmyndara Friðþjófi Helgasyni. Félagarnir eru staddir á æfingaflötinni og Björgvin leikur listir sínar með pútterinn. Úlfar virðist afar einbeittur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert