Aron skrifaði undir við Kiel

Aron Pálmarsson í leik með FH-ingum.
Aron Pálmarsson í leik með FH-ingum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Handboltakappinn Aron Pálmarsson skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við þýska stórliðið Kiel og er það staðfest á heimasíðu félagsins í dag. Samningurinn tekur gildi 1. júlí á næsta ári og gildir hann til 30. júní 2013.

Uwe Schwenke framkvæmdastjóri Kiel segir á heimasíðu Kiel að Aron sé mesta  efni í Evrópu í dag og segist hann sérlega ánægður með vera búinn að ná samningi um að fá íslenska landsliðsmanninn.

Aron er 18 ára gamall og er af mörgum talinn eitt mesta efni sem fram hefur komið í íslenskum handknattleik. Hann hefur farið á kostum með FH-liðinu í vetur og stimplaði sig með glæsibrag inn í íslenska landsliðið í vetur.

Aron mun klára tímabilið með FH-ingum en hann heldur svo utan til Þýskalands í sumar og verður fyrsti Íslendingurinn til að spila með liði Kiel en þjálfari þess er Alfreð Gíslason.

Aron fylgist með leik Kiel og Flensburg ásamt fjölskyldu sinni í dag en liðin eigast við í toppslag þýsku 1. deildarinnar í Campushöllinni í Flensburg.

Kiel á glæsilega sögu. Ekkert félag hefur unnið þýska meistaratitilinn oftar en liðið hefur hampað titlinum 14 sinnum, þar af 11 sinnum á síðustu 15 árum. Kiel vann Meistaradeildina árið 2007, hefur unnið þýska bikarinn fimm sinnum og þrisvar sinnum EHF-bikarinn. Þá lék liðið til úrslita í meistaradeild Evrópu í vor en tapaði fyrir Ólafi Stefánssyni og samherjum í Ciudad Real.

Heimavöllur Kiel. Ostseehalle, er hin mesta ljónagryfja. Hún rúmar 10.250 áhorfendur og er uppselt á alla heimaleiki, þar af eru um 9.700 ársmiðahafar. Hending er tapi Kiel leik á heimavelli.

Kiel trónir á toppi þýsku deildarinnar en eftir að hafa gert jafntefli við Dormagen í fyrsta leik sínum hefur það unnið 14 leiki í röð.

Myndasyrpa af Aroni á heimasíðu Kiel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert