Halldór Jóhann mun ekki þjálfa ÍBV

Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar ekki ÍBV á næstu leiktíð.
Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar ekki ÍBV á næstu leiktíð. mbl.is/Eggert

Halldór Jóhann Sigfússon sem stýrt hefur kvennaliði Fram í handknattleik og gerði liðið að Íslandsmeistara í fyrra, verður ekki þjálfari karlaliðs ÍBV á næstu leiktíð eins og útlit var fyrir. Halldór hefur verið orðaður við Vestmannaeyjar að undanförnu og að hann myndi þjálfa ÍBV við hlið Gunnars Magnússonar á næstu leiktíð.

Halldór viðurkenndi í viðtali við mbl.is eftir leik Gróttu og Fram í 8-liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í síðustu viku að hann ætti í viðræðum við ÍBV. Nú hafa þær hins vegar siglt í strand.

„Þetta gekk bara ekki upp af fjölskyldulegum ástæðum. Þannig að það er orðið klárt mál að ég sem ekki við ÍBV,“ sagði Halldór Jóhann þegar mbl.is ræddi við hann í dag. Hann er þó ekki hættur í þjálfun og gerir ráð fyrir því að ganga frá sínum málum fyrir næsta vetur einhvern tímann á næstu dögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert