Oddur og Ernir svo gott sem fallnir

Ernir Hrafn Arnarson skoraði 3 mörk fyrir Emsdetten.
Ernir Hrafn Arnarson skoraði 3 mörk fyrir Emsdetten. Ljósmynd/tvemsdetten.com

Botnliðið Emsdetten í 1. deild Þýskalands í handbolta beið lægri hlut gegn Lemgo í dag 38:29. Emsdetten hefur aðeins 7 stig í 18. sæti, 10 stigum á eftir Bergischer sem er í 15. sæti, en þrjú neðstu lið deildarinnar falla. Emsdetten er því svo gott sem fallið í 2. deild.

Ernir Hrafn Arnarson skoraði 3 mörk fyrir Emsdetten í dag en Oddur Gretarsson komst ekki á blað. Ólafur Bjarki Ragnarsson er úr leik hjá Emsdetten eftir að hafa slitið krossband í hné fyrr í vetur.

Þá vann Balingen-Weilstetten mikilvægan sigur á Eisenach í fallbaráttunni 29:22. Bjarki Már Elísson skoraði 5 mörk fyrir Eisenach en Hannes Jón Jónsson var ekki meðal markaskorara. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar Eisenach sem er í 17. sæti 1. deildarinnar með 11 stig og útlitið dökkt í fallbaráttunni. Balingen komst með sigrinum upp í 16 stig og er nú aðeins einu stigi frá Bergischer sem er í 15. sæti.

Í 2. deild Þýskalands gerði Grosswallstadt jafntefli við Hildesheim, 25:25. Fannar Friðgeirsson skoraði 3 mörk fyrir Grosswallstadt en Sverre Andreas Jakobsson skoraði ekkert mark fyrir liðið.

Þá vann Friesenheim sigur á Aue í 2. deildinni, 26:21. Árni Sigtryggsson skoraði 5 mörk fyrir Aue í leiknum og Bjarki Már Gunnarsson 2. Sigtryggur Rúnarsson var ekki meðal markaskorara en Sveinbjörn Pétursson markvörður leikur einnig með liðinu sem er þjálfað af Rúnari Sigtryggssyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert