Þórir og félagar sluppu í undanúrslit

Þórir Ólafsson fagnar marki í leik með Kielce.
Þórir Ólafsson fagnar marki í leik með Kielce. epa

Þórir Ólafsson og samherjar hans í pólska meistaraliðinu Kielce fengu óvænta og mikla mótspyrnu í kvöld þegar þeir sóttu Kwidzyn heim í átta liða úrslitunum um pólska meistaratitilinn í handknattleik.

Kielce vann auðveldan sigur á heimavelli, 41:19, en í kvöld var allt annað uppi á teningunum og heimamenn í Kwidzyn voru yfir lengi vel. Staðan var 35:35 eftir venjulegan leiktíma en í framlengingu náði Kielce að tryggja sér nauman sigur, 41:39. Þar með vann Kielce einvígið 2:0 en liðið vann alla 22 leiki sína í deildakeppninni í vetur.

Þórir skoraði 3 mörk fyrir Kielce en Spánverjinn Julen Aginagalde var markahæstur í liðinu með 8 mörk og Grzegorz Tkaczyk skoraði 6.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert