Einar Andri: Aftureldingarliðið er spennandi

„Forráðamenn Aftureldingar komu að máli við mig fyrir stuttu síðan og lögðu fram  ákveðnar hugmyndir. Mér leist vel á þær og ákvað að slá til," segir Einar Andri Einarsson, annar þjálfara handknattleiksliðs FH, um þá ákvörðun sína að taka að sér þjálfun Aftureldingar frá og með næsta keppnistímabili.

Einar Andri hefur skrifað undir þriggja ára samning við Aftureldingu um að þjálfa karlalið félagsins sem nýlega vann sér sæti á nýjan leik í Olís-deildinni.

Einar Andri hefur þjálfað meistaraflokkslið FH í karlaflokki í fimm ár og m.a. varð liðið Íslandsmeistari undir hans stjórn og Kristjáns Arasonar fyrir þremur árum. 

„Mér finnst rétt að takast á við nýja áskorun á mínum ferli sem þjálfari. Aftureldingarliðið er spennandi. Í því er mikill efniviður," segir Einar Andri.

„En áður en ég fer að leiða hugann að störfum mínum hjá Aftureldingu vil ég ljúka mínu starfi hjá FH með sem mestum sóma," segir Einar Andri Einarsson en FH-liðið er komið í vænlega stöðu í rimmu sinni við Hauka í undanúrslitum Olís-deildar karla með tvo sigurleiki og vantar einn sigur til þess að tryggja sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins.

Nánar er rætt við Einar Andra um væntanleg vistaskipti á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert