Aron: Við erum bálreiðir

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta karla.
Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Íslands í handbolta karla. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Við eigum rétt á þessu sæti á HM sem hefur verið afhent Þjóðverjum," segir Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, ómyrkur í máli í samtali við danska Ekstrabladet í dag um þá ákvörðun Alþjóða handknattleikssambandsins að veita Þjóðverjum keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Katar í á næsta ári eftir að IHF ákvað að afturkalla keppnisrétt Ástralíu.

„Það stendur skýrt í reglum IHF að fyrsta varaþjóð á heimsmeistaramóti eigi að koma frá álfu heimsmeistaranna og við erum fyrsta varaþjóð á Evrópu. Um það verður ekki deilt.

Þetta er allt mjög einkennilegt en það er á hreinu að við erum fyrstir í röðinni en engu að síður eru Þjóðverjar kallaðir til leiks. Það má öllum vera ljóst að þessi ákvörðun snýst um þýskan sjónvarpsmarkað og þar af leiðandi peninga," segir Aron ennfremur og bætir við.

„Við sættum okkur ekki við þessa ákvörðun. Við erum bálreiðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert