Pétur og félagar með fullt hús

Pétur Pálsson í skotstöðu í leik með Haukum fyrir fáeinum …
Pétur Pálsson í skotstöðu í leik með Haukum fyrir fáeinum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurganga Péturs Pálssonar og samherja í Kolstad heldur áfram í norsku 1. deildinni í handknattleik. Um nýliðna helgi vann Kolstad lið Kolbotn, 39:18, á útivelli. Kolstad er efst í deildinni með 10 stig að loknum fimm leikjum ásamt Follo HK.

Pétur skoraði fjögur mörk í leiknum. 

Birkir Fannar Bragason, markvörður, og félagar hans í Haugaland eru í áttunda sæti deildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki. Birkir stóð í marki liðsins á sunnudaginn þegar Haugaland vann Sandnes, 31:24, á útivelli.

Það er á brattann að sækja fyrir Kristiansund, sem Jónatan Þór Magnússon þjálfar og hópur Íslendinga leikur með. Kristiansund er án stiga eftir fimm leiki. Liðið tapaði á heimavelli fyrir Fjellhammer, 26:22, á sunnudaginn. Guðmundur S. Guðmundsson var markahæstur hjá Kristiansund með sex mörk auk þess að fá rautt spjald. Sigurgeir Árni Ægisson skoraði þrjú mörk og Halldór Guðjónsson tvö. Fannar Helgi Rúnarsson skoraði ekki að þessu sinni.  Þórður Rafn Guðmundsson var ekki í leikmannahópi Fjellhammer sem er í 5. sæti með sex stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert