Markmiðið er ekki að veikja samkeppnina

Alfreð Gíslason.
Alfreð Gíslason. AFP

Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalandsmeistara Kiel í handknattleik, svaraði í gær gagnrýni á stefnu félagsins í leikmannamálum. Kiel sækir Rhein-Neckar Löwen heim til Mannheim í toppslag þýsku 1. deildarinnar í dag en í aðdraganda leiksins hefur verið fjallað talsvert um kaup Kiel á leikmönnum frá keppinautunum í Þýskalandi undanfarin misseri.

Stefan Kretzschmar, fyrrverandi landsliðsmaður og lærisveinn Alfreðs hjá Magdeburg á sínum tíma, skrifaði m.a. í dálki sínum hjá Sport1: „Kiel er alveg eins og Bayern München. Þeir krækja í bestu leikmennina frá helstu andstæðingunum og veikja þar með samkeppnina.“

Bent er á að Kiel hafi þegar tryggt sér markvörðinn Niklas Landin frá Löwen fyrir næsta tímabil og hafi líka sótt þangað framkvæmdastjórann Thorsten Storm. Alfreð og hans menn séu ennfremur nýbúnir að ná í Steffen Weinhold frá Flensburg og besta handboltamann heims, Domagoj Duvnjak, frá Hamburg.

Alfreð segir að þetta sé ekki markmiðið. „Það er ekki á okkar stefnuskrá að veikja samkeppnina. En þegar við leitum fyrir okkur með nýja leikmenn, eru ekki margir sem koma til greina,“ sagði Alfreð í viðtali við dagblaðið Mannheimer Morgen í gær.

Þar stakk hann líka upp á því að reglum um leikmannahópa í Þýskalandi yrði breytt. „Í Meistaradeildinni má nota 16 menn í hverjum leik. Það væri hægt að gera líka í Þýskalandi á þann hátt að tveir í hópnum yrðu að vera ungir þýskir leikmenn. Þá myndu ekki bara félögin græða, heldur líka þýska landsliðið,“ sagði Alfreð Gíslason.

Fyrir toppslaginn í dag er Löwen á toppnum með 18 stig en Kiel er með 16 stig í öðru sætinu, bæði eftir tíu leiki. Göppingen og Flensburg eru með 14 og 12 stig en eiga leiki til góða og hafa tapað jafnmörgum leikjum og Kiel.

Aron Pálmarsson leikur ekki með Kiel í dag vegna meiðsla en Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson leika með Löwen.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert