Framarar skelltu toppliðinu

Gunnar Malmquist Þórsson skorar fyrir Aftureldingu gegn Fram.
Gunnar Malmquist Þórsson skorar fyrir Aftureldingu gegn Fram. mbl.is/Ómar

Fallbaráttulið Fram sigraði topplið Aftureldingar í 13. umferð Olís-deildar karla í handbolta 27:25 í Mosfellsbæ í afar spennandi leik en um er að ræða annar sigur Framliðsins í röð.

Leikurinn var jafn og spennandi í fyrri hálfleik en heimamenn í Aftureldingu höfðu þó yfirhöndina lengst af. Framarar áttu hins vegar góðan endasprett og þeir hefðu getað komið sér í tveggja marka forystu þegar 20 sekúndur voru eftir en misstu boltann klaufalega. Það nýttu Mosfellingar sér og jöfnuðu metin en staðan í hálfleik var 11:11.

Lið Aftureldingar var örlítið vængbrotið en veikindi herjuðu á hóp þeirra. Gunnar Malmquist og varnarmaðurinn Hrafn Ingvarsson voru báðir utan hóps vegna þeirra og þá spilaði Örn Ingi Bjarkason lítið vegna veikinda.

Í síðari hálfleik var allt í járnum. Aftureldingarliðið virkaði hins vegar sterkara og komst fljótt í tveggja marka forskot. Forskotið hefði í fyrsta skiptið getað orðið þrjú mörk í stöðunni 17:15 þegar að Árni Bragi Eyjólfsson komst í hraðaupphlaup en markvörður Framara, Mosfellingurinn Kristófer Fannar Guðmundsson sá við honum og hélt sínum mönnum inni í leiknum.

Þegar sex mínútur voru eftir af leiknum komust Framarar yfir, 23:22 og heimamenn virtust stressaðir. Ólafur Ægir Ólafsson skytta Framara kom þeim svo í tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir 24:22. Það bil reyndist of stórt til að brúa fyrir heimamenn og lokatölur urðu sanngjarn sigur Fram 27:25.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Afturelding 25:27 Fram opna loka
60. mín. Kristófer Fannar Guðmundsson (Fram) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert