Björgvin í stuði í sigri ÍR-inga á FH

Bjarni Fritzson úr ÍR og FH-ingarnir Henrik Bjarnason og Ásbjörn …
Bjarni Fritzson úr ÍR og FH-ingarnir Henrik Bjarnason og Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Ómar

ÍR-ingar höfðu betur þegar FH kom í heimsókn í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld, en liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn. Eftir að Hafnfirðingar höfðu haft frumkvæðið í upphafi leiks komu heimamenn öflugir til baka og uppskáru tveggja marka sigur,29:27.

FH-ingar byrjuðu leikinn betur og voru skrefinu á undan fyrstu tuttugu mínútur leiksins eða svo. Þeir náðu mest þriggja marka forskoti en voru yfirleitt einu til tveimur mörkum yfir. Þegar átta mínútur voru til leikhlés jöfnuðu ÍR-ingar hins vegar metin sem gaf þeim aukinn kraft á meðan varnarleikur FH-inga missti flugið.

Síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru svo í eigu ÍR-inga sem náðu fljótt þriggja marka forskoti gegn pirruðum Hafnfirðingum sem náðu að minnka muninn rétt fyrir hlé, staðan 18:16 að loknum fyrri hálfleik.

Heimamenn héldu uppteknum hætti eftir hlé, mættu einbeittir til leiks og náðu fljótt fimm marka forystu. FH-ingar reyndu hvað þeir gátu að koma til baka en ÍR-ingar með Björgvin Hólmgeirsson fremstan í flokki ætluðu ekki að láta forystuna af hendi. Mikil barátta einkenndi lokamínúturnar en heimamenn héldu út og uppskáru sigur, 29:27.

Björgvin var markahæstur ÍR-inga í leiknum með 12 mörk en hjá FH var Ragnar Jóhannsson markahæstur með 9 mörk.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is en nánar verður fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Þá koma viðtöl hér á vefinn síðar í kvöld.

ÍR 29:27 FH opna loka
60. mín. Aron Örn Ægisson (ÍR) skoraði mark Og gulltryggir sigurinn að öllum líkindum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert