Frábær vörn skilaði Þóri sigri

Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins.
Þórir Hergeirsson þjálfari norska kvennalandsliðsins. AFP

Þórir Hergeirsson og leikmenn hans í norska kvennalandsliðinu í handknattleik fögnuðu naumum sigri á franska landsliðinu, 21:20, á fjögurra þjóða æfingamóti í Noregi í kvöld. Frakkar voru með þriggja marka forskot í hálfleik en norska liðið tók við sér í þeim síðari og sneri taflinu við með frábærum varnarleik.

Þetta var fyrsti sigur norska landsliðsins í mótinu en það tapaði fyrir danska landsliðinu í fyrstu umferð í gær. Danir unnu stóran sigur á Serbum í kvöld 32:20. Öll eru liðin að búa sig undir lokakeppni Evrópumeistaramótsins sem hefst í Ungverjalandi og Króatíu undir lok næstu viku.

Lokaumferð mótsins fer fram á morgun. Þá leikur norska landsliðið við Serba í Oslo Spektrum. Uppselt er fyrir nokkru á leikinn en alls seldust 5.500 aðgöngumiðar á leikinn.

Linn-Kristin Riegelhuth Koren var markahæst hjá norska landsliðinu í kvöld. Hún skoraði sjö mörk. Veronica Egebakken Kristiansen var næst með fjögur mörk.  Stórstjarna franska liðsins, Allison Marie Pineau, var markahæst með fimm mörk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert