Valur í úrslitin eftir tvíframlengdan leik

Kári Kristján Kristjánsson í kröppum dansi við vörn FH-inga í …
Kári Kristján Kristjánsson í kröppum dansi við vörn FH-inga í dag.

Valur var nú rétt í þessu að tryggja sér sæti í úrslitaleik deildabikarkeppni karla í handknattleik eftir sigur á FH í undanúrslitum, 32:28. Tvær framlengingar þurfti til að skera úr um sigurvegara.

Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur. FH skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins áður en Valur breytti stöðunni í 7:4 sér í vil. Þá vöknuðu Hafnfirðingar á ný, skoruðu fjögur mörk í röð, náðu forystunni á ný og höfðu þriggja marka forskot í hálfleik, 11:8.

FH-ingar náðu mest fimm marka forystu í seinni hálfleik áður en Valsmenn jöfnuðu metin um miðbik hans. Jafnræði var með liðunum eftir það en FH var með eins marks forystu þegar tuttugu sekúndur voru eftir og Valsmenn með boltann. Ómar Ingi Magnússon jafnaði metin þremur sekúndum fyrir leikslok og því þurfti að framlengja, 23:23 eftir venjulegan leiktíma.

Ekki var jafnræðið minna í framlengingunni og eftir tvisvar fimm mínútna leik var enn jafnt, 25:25, og því þurfti að framlengja á ný. Þar voru Valsmenn sterkari þegar yfir lauk og uppskáru fjögurra marka sigur, 32:28, í þessum mikla maraþonleik

Valsmenn mæta annað hvort ÍR eða Aftureldingu í úrslitaleiknum á morgun.

Mörk Vals: Ómar Ingi Magnússon 8, Kári Kristján Kristjánsson 7, Elvar Friðriksson 6, Sveinn Aron Sveinsson 4, Alexander Örn Júlíusson 2, Bjartur Guðmundsson 1, Finnur Ingi Stefánsson 1, Orri Freyr Gíslason 1, Vignir Stefánsson 1, Daníel Ingason 1.

Mörk FH: Ísak Rafnsson 6, Andri Berg Haraldsson 5, Theodór Ingi Pálmason 4, Magnús Óli Magnússon 4, Þorgeir Björnsson 3, Ragnar Jóhannsson 3, Halldór Ingi Jónasson 2, Andri Hrafn Hallsson 1.

Ísak Rafnsson sækir að marki Valsmanna í dag.
Ísak Rafnsson sækir að marki Valsmanna í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert