KR í góðum málum eftir sigur á Selfossi

Baráttan er hörð um að komast upp í Olís-deildina.
Baráttan er hörð um að komast upp í Olís-deildina. mbl.is/Eva Björk

KR á góða von um að komast í umspil um sæti í Olís-deild karla í handknattleik eftir að hafa lagt Selfoss að velli í hörkuleik í KR-heimilinu í kvöld, 28:26.

KR jafnaði þar með Fjölni að stigum í 4.-5. sæti en bæði lið hafa 21 stig. KR hefur þó leikið 20 leiki en Fjölnir 18. Selfoss er með 23 stig í 3. sæti, eftir 19 leiki, og Hamrarnir í 6. sæti með 17 stig eftir 20 leiki. Liðin í 2.-5. sæti komast í fjögurra liða umspil um eitt laust sæti í Olís-deildinni. Hamrarnir og Fjölnir mætast á morgun.

KR hafði frumkvæðið mestallan leikinn í kvöld en munurinn varð aldrei meiri en 3 mörk. Selfoss komst yfir, 25:24, þegar skammt var eftir en KR skoraði næstu þrjú mörk og tókst að innbyrða sigur.

Arnar Jón Agnarsson var markahæstur hjá KR með 7 mörk og Finnur Jónsson skoraði 6. Hjá Selfossi var Hörður Másson markahæstur með 9 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert