Naumt hjá PSG - Snorri með á ný

Snorri Steinn Guðjónsson lék með Sélestat á nýjan leik í …
Snorri Steinn Guðjónsson lék með Sélestat á nýjan leik í kvöld eftir langa fjarveru. mbl.is/Golli

Róbert Gunnarsson og félagar í PSG unnu nauman sigur á Aix, 30:29, á útivelli í frönsku 1. deildinni í kvöld. Sigurinn var afar torsóttur því heimamenn voru seigir og neituðu að gefast upp  fyrr en í blálokin. PSG er eftir sem áður í öðru sæti deildarinnar á eftir Montpellier þegar sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

Luc Abalou skoraði sjö af mörkum PSG og var markahæstur. Daninn Mikkel Hansen var næstur með sex mörk. Róbert skoraði ekki að þessu sinni.

Snorri Steinn Guðjónsson lék með Sélestat á nýjan leik í kvöld og virtist það hafa góð áhrif á liðið sem vann Tremblay, 32:31, en Sélestat hefur ekki unnið nema fimm leiki á keppnistímabilinu. Snorri Steinn skoraði sex mörk. Sélestat er sem fyrr í næst neðsta sæti.

Snorri Steinn hafði verið frá keppni frá byrjun febrúar vegna fingurbrots.

Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði eitt mark fyrir Nimes þegar liðið vann Arnór Atlason og samherja í Saint Raphael, 30:28. Arnór skoraði þrjú mörk fyrir Saint Raphael sem situr í þriðja sæti deildarinnar. Nimes er í 11. sæti af 14 liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert