Ragnar í skák við Stefán

Ragnar Hermannsson þjálfari
Ragnar Hermannsson þjálfari mbl.is / Eggert Jóhannesson

Ragnar Hermannsson, þjálfari hjá Stjörnunni, var ánægður með að ná að jafna metin í einvígi Stjörnunnar og Fram í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik. Liðin áttust við í öðrum leik rimmunnar í Mýrinni í dag og urðu lokatölur 23:18 fyrir Stjörnuna.

„Mér fannst við spila þennan leik vel og ég hafði allan tímann á tilfinningunni að við myndum ná að vinna leikinn. Það sem við löguðum frá því í síðasta leik var að við sýndum meiri aga og skynsemi í sóknarleiknum. Þá var hraðinn og áræðnin í sóknarleiknum miklu meiri. Við náðum af þeim sökum tökum á leiknum í upphafi leiks sem að við slepptum sem betur fer ekki og náðum að jafna metin í einvíginu.“

„Við gerðum fyrir þennan leik breytingar á nokkrum atriðum frá því í fyrsta leik. Bæði hvað varðar undirbúning liðsins og hvernig við nálguðumst leikinn. Þetta lið hefur gaman af því að prófa nýja hluti og það er gaman að rífa þær út úr munstri. Mér fannst þær skila því svakalega vel í dag að fá nýjar áskoranir í sóknarleiknum.“   

Stjarnan hefði getað gert út um leikinn í fyrri hálfleik

„Við fengum nokkur tækifæri til þessa gera út um leikinn endanlega, en við nýttum þau ekki. Sem dæmi er vítakast sem við misnotum í stöðunni 11:6 og þær minnka muninn strax í kjölfarið. Fram fengu sín tækifæri í seinni hálfleik til þess að koma sér aftur inn í leikinn, en sem betur fer nýttu þær sér ekki þær sóknir. Við náðum ekki að hrista Fram frá okkur fyrr en undir lokin. Þú getur aldrei slakað í leikjum eins og þessum og við verðum að hafa það hugfast í næstkomandi leikjum.“

„Við erum með aðeins of marga tæknifeila miðað við hraðann í leiknum og að þær spiluðu 6:0 vörn. Það var ekki mikið, en við getum lagað það fyrir næsta leik. Það kom svo helst til langur kafli í seinni hálfleik þar sem við skorum ekki mark og við verðum að leita leiða til þess að skora jafnt og þétt í leiknum á mánudaginn.“

„Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, er mikill skákmeistari og nú kemur líklega með nýtt útspil fyrir næsta leik. Stefán sagði í viðtölum fyrir þennan leik að Stjarnan sé miklu sigurstranglegri í þessu einvígi. Ef að ég þekki Stefán rétt þá kemur hann með einhverja óvænta fléttu í skákinni. Við vissum það fyrir einvígið að við þurfum að vinna útileik til þess að komast í úrslitin. Hvort það verður á mánudaginn eða í leik fimm, það kemur bara í ljós.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert