Geir fær Damgaard fyrir væna summu

Michael Damgaard hefur verið lærisveinn Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu …
Michael Damgaard hefur verið lærisveinn Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu í vetur. Ljósmynd/dhf.dk

Danski landsliðsmaðurinn Michael Damgaard verður lærisveinn Geirs Sveinssonar hjá Magedeburg frá og með næstu leiktíð. Hann kemur til félagsins frá Team Tvis Holstebro í Danmörku og samdi til tveggja ára.

Damgaard varð markahæstur í dönsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og er næstmarkahæstur á þessari leiktíð. Þessi 25 ára gamli leikmaður þreytti frumraun sína á stórmóti þegar Guðmundur Guðmundsson tefldi honum fram á HM í Katar í janúar, og vakti mikla athygli.

Samkvæmt heimildum TV2 í Danmörku fær Team Tvis Holstebro jafnvirði tæplega 18 milljóna íslenskra króna fyrir Damgaard, sem sagt er vera með því hæsta sem danskt handknattleiksfélag hefur fengið fyrir einn leikmann.

TTH seldi sömuleiðis eldri bróður Michaels, Allan Damgaard, til Hamburg og er samanlagt söluvirði bræðranna sagt hafa farið yfir 20 milljónir íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert