Læknavísindin komi honum í úrslitaeinvígið

Jóhann Gunnar Einarsson í undanúrslitaeinvíginu gegn ÍR.
Jóhann Gunnar Einarsson í undanúrslitaeinvíginu gegn ÍR. Eva Björk Ægisdóttir

Jóhann Gunnar Einarsson einn besti leikmaður Aftureldingar missti af stórum hluta undanúrslitaeinvígisins gegn ÍR vegna meiðsla sem hann varð fyrir í öðrum leik liðanna á öxl. Enn er óvíst um framhaldið en Jóhann gerir sér þó vonir um að spila gegn Haukum.

Jóhann fékk hnikk á öxlina í öðrum leik Aftureldingar gegn ÍR og segir hann miklar bólgur hafa komið í kjölfarið. Mögulega gæti sin hafa rifnað en Jóhann mun fara í myndatökur á næstu dögum.

„Við skulum vona að læknavísindin séu komin það langt að ég nái að spila í úrslitaeinvíginu,“ sagði Jóhann þegar blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til hans í morgun.

Næsti leikur Aftureldingar, gegn Haukum í úrslitaeinvíginu fer fram að Varmá þann 6. maí og segir Jóhann þá tíu daga sem eru í hann, vera kærkomna hvíld.

„Það kemur mjög góð og kjörin pása fyrir hnjaskaða menn. Nú gerum við allt sem mögulegt er. Ég mun hitta sjúkraþjálfara, lækna og athuga hvort það sé hægt að sprauta og mynda þetta. Þetta eru tíu dagar sem ég fæ þar sem maður getur alveg hvílt. Ég náði aldrei almennilega að jafna mig á tveimur dögum, þetta versnaði bara og versnaði,“ sagði Jóhann.

Jóhann Gunnar Einarsson meiddist í leik tvö í einvíginu.
Jóhann Gunnar Einarsson meiddist í leik tvö í einvíginu. mbl.is/Kristinn

Jóhann Gunnar spilaði í einni sókn í gær í ótrúlegum 30:29 sigri Mosfellinga gegn ÍR í framlengdum leik.

„Það er svo leiðinlegt að sitja á bekknum, maður var kominn með svo mikinn fiðring. Ég spurði hvort ég mætti prufa aðeins í framlengingunni, hélt ég yrði ferskur, en um leið og ég tók smá sendingu kom þessi nístandi sársauki. Strákarnir voru búnir að standa sig svo frábærlega, ég vildi ekki klúðra einhverju fyrir þá,“ sagði Jóhann.

Jóhann hitaði upp með liðinu í gær og sást senda boltann og taka létt skot, það er hins vegar allt annað mál þegar í leik er komið.

„Meðvitaðar léttar sendingar eru ekki óþægilegar. Ég veit hvernig öxlin fer, en um leið og maður er kominn í leik, allar óvæntar hreyfingar, þá langar mig helst til að losa öxlina af,“ sagði Jóhann sem verður þó alltaf í hóp gegn Haukum.

„Ég vil frekar vera í hóp heldur en upp í stúku. Ég myndi hofa á þetta í sjónvarpinu ef ég væri ekki í hóp. Ég get ekki verið þarna og horft á þetta, það er alveg hræðilegt,“ sagði Jóhann Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert