Svona erum við bestar

Eva Björk Davíðsdóttir.
Eva Björk Davíðsdóttir. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er langt frá því að vera búið. Við þurfum að hugsa strax um næsta leik,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir sem átti afar góðan leik í liði Gróttu í kvöld og skoraði 9 mörk í sigrinum á Stjörnunni í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik.

Grótta er í fyrsta sinn í úrslitum og liðið varð fyrir áföllum í leiknum í kvöld:

„Við lendum í því að Laufey [Ásta Guðmundsdóttir] og Karolína [Bæhrenz Lárudóttir] detta út en þá eru næstu bara klárar á bekknum. Það er barátta í öllum og við ætluðum okkur þetta allan tímann, sem skilaði sér,“ sagði Eva.

Grótta átti erfitt uppdráttar um miðjan fyrri hálfleik og skoraði ekki mark á tíu mínútna kafla en náði að snúa við blaðinu.

„Þegar karakterinn og stemningin í liðinu er svona þá vinnum við upp þau mistök sem við gerum,“ sagði Eva, ánægð með markvörð Gróttu sem varði 25 skot í leiknum: „Íris er frábær og við vinnum þetta mjög vel saman, vörnin og markvarslan. Þannig erum við bestar,“ sagði Eva.

Vel hefur verið mætt á leiki Gróttu og stemningin var mikil í seinni hálfleiknum þegar Grótta tryggði sér smám saman sigurinn.

„Þetta er rosalega skemmtilegt. Það er fáránlega gaman að fá allt þetta fólk á völlinn til að láta heyra í sér. Stemningin var frábær,“ sagði Eva.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert