Karabatic keypti upp eigin samning

Nikola Karabatic fer frá Barcelona.
Nikola Karabatic fer frá Barcelona. AFP

Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic er formlega á förum frá spænska meistaraliðinu Barcelona, sem Guðjón Valur Sigurðsson leikur með, en það hefur legið í loftinu í einhvern tíma. Talið er að Karabatic muni halda heim og ganga til liðs við PSG í Frakklandi, sem Róbert Gunnarsson leikur með.

Það sem hefur endanlega ráðið því að Karabatic er á förum, er að hann mætti á skrifstofu félagsins í dag og keypti sjálfur upp samning sinn. „Karabatic sagði okkur að hann vildi fara fyrir nokkrum vikum og eftir að hafa heyrt ástæður hans styðjum við hann heilshugar í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ sagði Xavier Pascual, tæknilegur ráðgjafi félagsins.

Karabatic var hjá Börsungum í tvö ár, þar sem hann vann allt í allt tólf titla. Meðal annars var þar Meistaradeild Evrópu, tveir deildartitlar og tveir heimsmeistaratitlar félagsliða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert