Kiel hafði það af á lokasprettinum

Alfreð Gíslason þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason þjálfari Kiel. AFP

Þýska meistaraliðið Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar,  náði að leggja Hannover-Burgdorf með fjögurra marka mun á heimavelli í kvöld, 33:29, í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Kiel átti þó lengi vel í basli með liðsmenn Burgdorf og var marki undir hálfleik og um skeið þremur mörkum undir í síðari hálfleik.

Það var ekki fyrr enn rétt fyrir miðjan síðan hálfleik sem leikmönnum Kiel tókst að snúa taflinu sér í hag. Kiel hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni en Burgdorf er með einn vinning auk tapsins í kvöld. 

Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir Burgdorf en Ólafur Andrés Guðmundsson komst ekki á blað. Daninn Morten Olsen skoraði 10 mörk fyrir Burgdorf, ekkert úr vítakasti. Svíinn Niklas Ekberg skoraði átta mörk fyrir Kiel og Króatinn Domagoj Duvnjak kom næstur með sjö mörk. 

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk þegar Rhein-Neckar Löwen vann sannfærandi sigur á nýliðum Eisenach á heimavelli í Mannheim, 39:25. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði eitt mark úr vítakasti fyrir Löwen en Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði þrjú mörk fyrir Eisenach.

Löwen er með tvo vinninga eftir tvo leiki. Eisenach er með einn sigur og tvö töp eftir þrjá leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert