Selfyssingar í annað sætið

Atli Kristinsson skoraði 12 mörk fyrir Míluna gegn KR í …
Atli Kristinsson skoraði 12 mörk fyrir Míluna gegn KR í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Selfyssingar eru komnir í annað sætið í 1. deild karla í handknattleik eftir sigur á Þrótturum, 25;23, í hörkuleik í Laugardalshöllinni í kvöld. 

Elvar Örn Jónsson skoraði 7 mörk fyrir Selfyssinga og Andri Már Sveinsson 5. Hjá Þrótti voru Guðni Siemsen og Þröstur Bjarkason markahæstir með 5 mörk hvor. Staðan í hálfleik var 13:11, Selfyssingum í hag.

HK vann ÍH í miklum markaleik í Digranesi, 39:32, og náði Þrótti að stigum í fjórða til fimmta sætinu. Svavar Kári Grétarsson skoraði 9 mörk fyrir HK og Sigurður Egill Karlsson 8. Hjá ÍH var Bogi Eggertsson með 9 mörk og Þórir Bjarni Traustason með 8.

KR-ingar eru enn án stiga á botninum eftir tap á heimavelli gegn Mílunni, 24:26. Atli Kristinsson fór á kostum með Mílunni og skoraði 12 mörk og Gunnar Páll Júlíusson gerði 5. Hjá KR var Arnar Jón Agnarsson með 6 mörk og Sigurbjörn Markússon 5.

Eftir tíu umferðir er Stjarnan með 18 stig á toppnum, Selfoss er með 16 stig og Fjölnir 14 en ljóst er að þessi þrjú lið eiga möguleika á að vinna deildina og fara beint upp í úrvalsdeildina.

Þróttur og HK eru með 10 stig, Mílan 8, ÍH 4 en KR ekkert stig.

Liðin sem enda í öðru til fimmta sæti í lok tímabilsins fara í umspil um eitt úrvalsdeildarsæti og eins og staðan er núna myndu Þróttur, HK og Mílan slást um tvö sæti í umspilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert