Stjarnan sló Akureyringa út

Guðmundur Sigurður Guðmundsson skýtur að marki Akureyringa í kvöld.
Guðmundur Sigurður Guðmundsson skýtur að marki Akureyringa í kvöld. mbl.is/Golli

Stjarnan, efsta lið 1. deildar karla í handknattleik, gerði sér lítið fyrir og sló út úrvalsdeildarlið Akureyrar í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik í kvöld.

Stjarnan vann þriggja marka sigur, 26:23, eftir að hafa haft frumkvæðið stærstan hluta leiksins. Stjörnumenn skoruðu fjögur síðustu mörk fyrri hálfleiks og voru fimm mörkum yfir að honum loknum, 16:11. Akureyri hleypti hins vegar fljótt spennu í leikinn í seinni hálfleik og munurinn var aðeins eitt mark þegar um 10 mínútur voru eftir. Gestirnir náðu þó aldrei að jafna metin og á endanum varð þriggja marka sigur Stjörnunnar staðreynd.

Einar Ólafur Vilmundarson varði mjög vel í marki Stjörnunnar, líkt og reyndar Hreiðar Levý Guðmundsson hjá Akureyri. Guðmundur Sigurður Guðmundsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 6 mörk og Eyþór Magnússon skoraði 5. Kristján Orri Jóhannsson skoraði 9 mörk fyrir Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert