Fallegri handbolti hér á Íslandi

Mikk Pinnonen var markahæstur Aftureldingar með 9 mörk en átti …
Mikk Pinnonen var markahæstur Aftureldingar með 9 mörk en átti einnig urmul góðra stoðsendinga. mbl.is/Golli

„Við unnum þannig að þá er maður ánægður,“ sagði Eistlendingurinn Mikk Pinnonen, sem átti magnaðan leik fyrir Aftureldingu í sigrinum á Fram í Olís-deildinni í handbolta í kvöld, en vildi sem minnst úr sínum þætti gera.

Pinnonen kom til Aftureldingar frá Bayer Dormagen í þýsku 2. deildinni í janúar og var maður leiksins í kvöld þar sem hann lagði upp hvert dauðafærið á fætur öðru fyrir liðsfélaga sína og var markahæstur með 9 mörk.

„Þetta var fínt. Það var eitthvað um mistök sem hefði getað verið hægt að koma í veg fyrir, en við unnum. Við höfum unnið mikið í því að læra hver inn á annan, því ég er aðkomumaður hérna og svo til nýkominn. Það hefur gengið ágætlega, eins og sást í kvöld. Ef við höldum svona áfram á þessari leið er aldrei að vita hvað getur gerst,“ sagði Pinnonen, sem getur leikið sem vinstri skytta eða leikstjórnandi. Hann er ánægður með fyrstu kynni sín af því að spila á Íslandi:

Mikk Pinnonen var duglegur við að ógna með skottilburðum en …
Mikk Pinnonen var duglegur við að ógna með skottilburðum en gefa svo boltann á Pétur Júníusson eða einhvern annan af liðsfélögum sínum, í leiknum gegn Fram í kvöld. mbl.is/Golli

„Bestu liðin hérna eru góð og gætu auðveldlega verið að spila í 2. deild í Þýskalandi. Þar er reyndar mikill munur á efstu og neðstu liðunum. Ég kann vel við Olís-deildina. Hún gengur mikið út á tækni manna frekar en að menn séu þungir og sterkir. Þetta er fallegri handbolti, ekki sama harkan,“ sagði Pinnonen, sem líst einnig vel á land og þjóð:

„Ég er hálfafbrýðisamur því þetta er svo svalt land. Þið ættuð að vera stolt af því. Þetta er svo fjarri öllu en samfélagið virðist vera mjög gott. Ég hef heyrt að þið kvartið svolítið mikið en ég verð að segja að þið hafið yfir miklu minna að kvarta en fólk á meginlandi Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert