Forréttindi að standa fyrir aftan þessa vörn

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, fór á kostum í marki Hauka í …
Elín Jóna Þorsteinsdóttir, fór á kostum í marki Hauka í kvöld. mbl.is/Eggert

Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti stórleik í marki Hauka í kvöld þegar Hafnfirðingar völtuðu yfir Stjörnuna, 25:16, í Olís-deild kvenna í handknattleik. Með sigrinum komust Haukar í efsta sæti deildarinnar, í bili að minnsta kosti en Grótta getur komist aftur þangað takist Seltirningum að sigra Selfoss á morgun.

„Við komum bara brjálaðar í leikinn. Einbeitningin var á 100 og við gáfum allt í þetta, allan fyrri hálfleikinn,“ sagði Elín í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld þar sem hún var beðin að lýsa ótrúlegum fyrri hálfleiknum. Haukar höfðu 13 marka forystu að honum loknum, 17:4.

„Vörnin var frábær í fyrri hálfleik og það voru algjör forréttindi að fá að standa á bakvið þessa vörn,“ sagði Elín ennfremur og vildi lítið gera úr eigin stórleik en hún fór á kostum milli stanganna, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Aðspurð sagðist Elín ekki hafa hugmynd um hvað Óskar Ármannsson, þjálfari Hauka, sagði inni í búningsklefanum í hálfleik. „Ég var úti á velli að skokka í hálfleiknum og hef ekki hugmynd um hvað hann sagði!“

Hún sagði að Haukar ætluðu sér að vera á toppnum áfram. „Við ætlum að halda okkur þar og erum ekki að fara neitt. Við erum búnar að standa okkur rosalega vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert