Karen öflug í jafntefli við toppliðið

Karen Knútsdóttir hefur leikið afar vel fyrir Nice að undanförnu.
Karen Knútsdóttir hefur leikið afar vel fyrir Nice að undanförnu. Ljósmynd/ogcnicehandball.com

Landsliðsfyrirliðinn Karen Knútsdóttir var næstmarkahæst hjá Nice í kvöld þegar liðið gerði jafntefli við topplið Metz, 23:23, í frönsku 1. deildinni í handknattleik.

Karen skoraði fimm mörk í leiknum og Arna Sif Pálsdóttir eitt. Karen kom meðal annars Nice í 23:22 þegar 1 mínúta og 45 sekúndur lifðu leiks, en Metz tókst að jafna áður en yfir lauk.

Karen var markahæst í síðustu tveimur leikjum Nice og hefur skorað 6,2 mörk að meðaltali í leik eftir að tímabilið hófst að nýju eftir langt jóla- og HM-frí.

Nice er nú með 29 stig í 5. sæti deildarinnar og á einn leik eftir. Metz er enn efst í deildinni með 36 stig. Sex efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Liðið í 7. sæti, Nantes, þarf að vinna alla þrjá leikina sem liðið á eftir til að koma í veg fyrir að Nice komist í úrslitakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert