Kom fimm mánuðum fyrr en ég bjóst við

„Við vorum bara rólegar, lokuðum þessu og svo varði ég,“ sagði Heiða Ingólfsdóttir hlæjandi og glöð eftir að hafa varið lokaskot Hauka og tryggt Stjörnunni endanlega sigur á Haukum í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handbolta.

Heiða hefur varið mark Stjörnunnar af stakri prýði í síðustu tveimur leikjum, eftir að landsliðsmarkvörðurinn Florentina Stanciu meiddist. Hún átti sinn þátt í 23:22-sigri Stjörnunnar á Haukum í oddaleik liðanna í kvöld, sem skilaði Stjörnunni í úrslit gegn Gróttu.

„Við Flora erum ótrúlega gott teymi og vinnum mjög vel saman. Það er gaman að geta svarað kallinu þegar það kemur og standa sig þegar það þarf að axla þessa ábyrgð. Eins og staðan er núna þá stefnir í að ég verði fyrsti markvörður hjá Stjörnunni á næsta ári þannig að það kom bara fimm mánuðum fyrr en ég bjóst við,“ sagði Heiða, sem hafði síðast spilað heilan leik í markinu árið 2012 áður en kom að þessari undanúrslitarimmu við Hauka.

Nánar er rætt við Heiðu í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert