Þurfum að halda mistökum í lágmarki

Hildigunnur Einarsdóttir.
Hildigunnur Einarsdóttir. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta leggst bara vel í mig, æfingarnar hafa verið fínar og undirbúningurinn í heild hefur verið góður. Stemmingin er fín í hópnum og við erum klárar í slaginn,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, sem mætir Frökkum á morgun í undankeppni EM 2016 í samtali við mbl.is í dag.

Florentina Stanciu, Guðrún Ósk Maríasdóttir, Elín Jóna Þorsteinsdóttir, Ramune Pekarskyte og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir geta ekki leikið með íslenska liðinu á morgun og þá er óvíst með þátttöku Rutar Jónsdóttur. 

„Það er alltaf slæmt fyrir okkur þegar við missum út leikmann þar sem leikmannahópurinn er ekki breiður. Leikmennirnir sem hafa komið í staðinn hafa hins vegar staðið sig vel og við erum vel í sveit sett með markmenn. Íris [Símonardóttir] og Berglind [Hansdóttir] eru með bestu markmönnum landsins og þær munu klárlega standa sig mjög vel,“ sagði Hildigunnur um forföllin hjá íslenska liðinu.

„Við eigum raunhæfa möguleika á að vinna franska liðið þó svo að það sé ógnarsterkt. Við höfum gert ágætishluti gegn Frökkum í gegnum tíðina. Við þurfum að spila af fullum krafti allan tímann, en við höfum nokkrum sinnum brennt okkur á því að slaka á í smástund. Leikmenn franska liðsins eru þannig gerðar að þær valta yfir andstæðinginn ef hann gefur færi á sér og við megum því ekki gera það,“ sagði Hildigunnur um franska liðið.

„Við þurfum að spila gríðarlega sterka vörn og fá góða markvörslu. Það skiptir miklu máli að ná að skora auðveld mörk úr hraðaupphlaupum. Síðan þurfum við að fækka þeim mistökum sem við höfum verið að gera í sóknarleiknum í síðustu leikjum. Við verðum að klára sóknirnar með goðum skotum sem koma í veg fyrir að þær nái að keyra í bakið á okkur með hraðaupphlaupum,“ sagði Hildigunnur um lykilinn að sigri íslenska liðins í leiknum á morgun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert