Guðjón Valur atkvæðamestur í bikarsigri

Guðjón Valur Sigurðsson var með sjö mörk í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson var með sjö mörk í dag. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik, var atkvæðamestur er Rhein-Neckar Löwen fór nokkuð örugglega áfram í þýska bikarnum í dag. Hann var með sjö mörk.

Rhein-Neckar Löwen valtaði yfir TV Hochdorf 42:19. Guðjón Valur Sigurðsson var atkvæðamestur í liði Löwen með 7 mörk ásamt Patrick Groetzki. Alexander Petersson var ekki með vegna meiðsla. Þetta var fyrsti mótsleikur Guðjóns með Löwen eftir að hann kom til félagsins frá Barcelona í sumar.

Bergischer lagði Emsdetten 28:21. Arnór Þór Gunnarsson og Björgvin Páll Gústavsson voru báðir í liði Bergischer en Arnór var með fjögur mörk. Oddur Gretarsson var með þrjú mörk fyrir Emsdetten.

Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel áttu ekki í vandræðum með VfL Fredenback en leiknum lauk með 29:20 sigri Kiel.

Aron Rafn Eðvarðsson og félagar hans í BBM Bietigheim unnu 36:31 sigur á Leichlinger TV og þá tókst Eisenach að vinna Nussloch 34:22. Ólafur Bjarki Ragnarsson var ekki með Eisenach í dag.

Hüttenberg tapaði þá fyrir Wetzlar 30:25. Ragnar Jóhannsson gerði eitt mark fyrir Hüttenberg en Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar liðið sem er nýliði í B-deildinni.

Íslendingalið Aue fór þá létt með Konstanz, 31:23. Árni Sigtryggsson gerði þrjú mörk á meðan Sigtryggur Daði Rúnarsson var með eitt mark. Bjarki Már Gunnarsson komst ekki á blað. 

Rúnar Kárason var með tvö mörk er Hannover Burgdorf sigraði Bad Schwartau 31:27. Þá fóru Erlingur Richardsson og lærisveinar hans hjá Füchse Berlín þægilega áfram en liðið sigraði Oranianburger 41:26. Bjarki Már Elísson var ekki með Füchse.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert