Erfiður hjalli í hálfleik

Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Einar Jónsson, þjálfari liðsins Stjörnunnar, virkaði nokkuð ósáttur á hliðarlínunni með sína menn en það er ljóst að mikið andleysi var í liðinu nánast allan leikinn við ÍBV í kvöld í Olís-deildinni í handknattleik. Eyjamenn unnu örugglega, 30:23.

„Algjör vonbrigði hvernig við spilum fyrri hálfleikinn. Við vorum alls ekki góðir en mér fannst við reyndar byrja þetta vel. Við spiluðum ágætlega og vörnin var góð, við fórum mjög illa með upplögð marktækifæri á fyrstu tíu mínútunum. Mér fannst þá einnig vanta upp á markvörslu þar sem vörnin var góð," sagði Einar eftir fyrsta tapleik Stjörnunnar í deildinni á leiktíðinni. 

„Síðan datt botninn úr þessu upp úr miðjum fyrri hálfleik og Eyjamennirnir voru góðir og spiluðu mjög vel í dag,“ sagði Einar en hefur hann einhverjar skýringar á því hvers vegna botninn datt úr leik Stjörnumanna um miðjan fyrri hálfleik?

„Það er erfitt að segja til um það akkúrat núna. Það gekk ekkert upp, við vorum að kasta í hendurnar á þeim, fórum illa með færi og vörnin að sama skapi opnast mjög illa hjá okkur. Það eru ákveðin atriði sem fara úrskeiðis, tvö eða þrjú atriði og fyrir það refsar lið eins og ÍBV.“

Komu leikmenn illa stemmdir inn í leikinn?

„Mér fannst við líta ágætlega út í upphafi leiks, nei mér fannst menn mæta ágætlega stemmdir. Undirbúningurinn var fínn og ekkert yfir því að kvarta.“

Stjörnumenn voru sjö mörkum undir í hálfleik, var þetta búið þá?

„Það er aldrei búið í hálfleik, en erfiður hjalli fyrir okkur. Mér fannst við byrja seinni hálfleikinn mjög vel og koma af miklum krafti, við náðum góðu rönni og förum samt með nokkuð tækifæri til að búa til leik. Það var týpískt að við náðum því aldrei, við fórum með hraðaupphlaup, vítaköst, einn á móti markmanni og fleira sem að verður okkur að falli í þessum leik í dag.“

Fimm leikjum lokið hjá Stjörnunni í Olís-deildinni, hvernig finnst Einari deildin hafa farið af stað?

„Deildin er jöfn og skemmtileg, ómögulegt að segja fyrir fram um það hvernig leikir fara. Þannig á þetta að vera og þetta er flott start á deildinni.“

Ólafur Gústafsson spilar ekki með Stjörnunni þessa dagana, það hlýtur að muna mikið um hann.

„Það er klárt að það vantar mikið þegar það vantar Óla. Það vantar líka fleiri leikmenn en það þýðir ekkert að skýla sér á bakvið það. Við erum með nógu gott lið til þess að spila betur en við gerðum í þessum leik.“

Stjarnan er í ákveðinni uppbyggingarstarfsemi þar sem mikið af leikmönnum eru uppaldir hjá félaginu.

„Við erum með mikið af uppöldum leikmönnum og stráka sem eru efnilegir hafa verið að fá tækifæri og nýtt það ágætlega. Auðvitað þurfa þeir tíma til að þroskast og verða betri, þeir fá það hjá okkur og nýta vonandi tækifærið.“

Einar lét dómarana fara aðeins í taugarnar á sér á hliðarlínunni, fannst honum þeir dæma illa?

„Mér fannst þeir bara dæma með ÍBV í þessum leik í algjörri hreinskilni. Það hefur þó ekkert með úrslit leiksins að gera við vorum lélegri heldur en dómararnir á löngum köflum. Það var klárlega ósamræmi í dómgæslunni,“ sagði Einar Jónsson þjálfari Stjörnunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert