Hefðum átt að fá víti í lokasókninni

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram.
Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er hrikalega svekkjandi þar sem við áttum hiklaust skilið allavega eitt stig í þessum leik og jafnvel tvö. Við vorum komnir í góða stöðu eftir að hafa byrjað leikinn afar illa. Mér fannst margir dómar falla á móti okkur í þessum leik og ég nefni sem dæmi að ég tel að við hefðum átt að fá vítakast í lokasókninni okkar,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir 29:28 tap liðsins gegn FH í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Við töpuðum hins vegar ekki leiknum vegna vafaatriða í dómgæslunni heldur var það slæm byrjun í leiknum og óskynsamlegar ákvarðanir undir lok leiksins sem urðu okkur að falli. Við sýndum mikinn karakter þegar við komum til baka eftir að hafa komið okkur í erfiða stöðu með því að mæta ekki klárir til leiks. Við spiluðum vel í 45 mínútur í þessum leik, en því miður var það ekki nóg,“ sagði Guðmundur Helgi um frammistöðu Fram í leiknum.

„Við erum með gott lið þegar við leikum af fullum krafti eins og ég hef sagt áður í vetur. Okkur vantaði reynslu og klókindi í þessum leik, en við lærum af þessum og þessi leikur fer í reynslubankann. Ef við höldum áfram á sömu braut og lengjum góðu kaflana okkar þá erum við í góðum málum í næstu leikjum liðsins. Við byggjum á því sem við gerðum vel í þessum leik og mætum klárir í næsta verkefni,“ sagði Guðmundur Helgi um framhaldið hjá Fram.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert