Jöfn barátta í 1. deildinni

Jón Kristinn Björgvinsson skoraði 9 mörk fyrir ÍR gegn KR.
Jón Kristinn Björgvinsson skoraði 9 mörk fyrir ÍR gegn KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir gífurlega harða baráttu í 1. deild karla í handknattleik í vetur en fjórir leikir fóru fram í kvöld og þrjú lið sem höfðu byrjað vel, Þróttur, HK og ÍR, töpuðu öll stigum gegn liðum sem eru neðar á stigatöflunni.

Ungmennalið Stjörnunnar skellti Þrótti, 27:26, eftir að hafa verið 17:9 yfir í hálfleik. Hörður Kristinn Örvarsson skoraði 8 mörk fyrir Stjörnuna og Hjálmtýr Alfreðsson 7 en hjá Þrótti voru Jón Hjálmarsson og Axel Sveinsson atkvæðamestir með 6 mörk hvor.

ÍR varð að sætta sig við jafntefli gegn KR, 27:27, í Austurbergi. Jón Kristinn Björgvinsson skoraði 9 mörk fyrir ÍR en Arnar Jón Agnarsson skoraði 7 mörk fyrir KR-inga.

Víkingar gerðu góða ferð í Digranesið og unnu þar HK, 28:21, eftir að hafa verið 14:8 yfir í hálfleik. Víglundur Jarl Þórsson og Jónatan Vignisson gerðu 6 mörk hvor fyrir Víking en Sigurður Egill Karlsson skoraði 10 mörk fyrir HK.

Í fjórða leik kvöldsins vann svo ungmennalið Vals sigur á Mílunni, 31:23, á Selfossi. Alexander Jón Másson og Bjarni Ófeigur Valdimarsson gerðu 8 mörk hvor fyrir Val en Egidijus Mikalonis skoraði 7 mörk fyrir Míluna.

Fjölnir er með fullt hús stiga á toppnum, hefur unnið alla sex leiki sína og er með 12 stig. ÍR og HK eru með 8 stig, Þróttur 7, Valur U og Víkingur eru með 6 stig, KR og Stjarnan U eru með 5, Hamrarnir og Akureyri U 4, Mílan er með 3 stig og ÍBV U er með 2 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert