„Liðið stóð saman“

Vörnin fyrir framan Sölva var öflug í seinni hálfleik í …
Vörnin fyrir framan Sölva var öflug í seinni hálfleik í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sölvi Ólafsson kom inn á í mark Aftureldingar í upphafi síðari hálfleiks og stóð stig vel þegar toppliðið lagði Val að velli 25:23 í Olís-deildinni í handknattleik í kvöld. 

Valur var yfir 13:10 að loknum fyrri hálfleik og náði fimm marka forskoti áður en Mosfellingar snéru taflinu við. Sölvi varði sjö skot í síðari hálfleik og átti sinn þátt í sigrinum.

„Ég myndi segja að okkar karakter hafi skipt sköpum í siðari hálfleik. Vissulega klisjukennt svar en gott og gilt,“ sagði Sölvi þegar mbl.is innti hann eftir viðbrögðum þegar niðurstaðan lá fyrir.

„Liðið stóð saman þegar blés á móti. Við höfum áður unnið upp forskot og við sýndum að við erum eitt þeirra liða sem erfitt er að vinna í þessari deild. Vörnin var stöðug fyrir framan mig þegar leið á leikinn og ég var sáttur við þetta. Við vitum hvað við eigum að gera og erum góðir þegar við fylgjum okkar áætlun,“ sagði Sölvi sem sagðist ekki hafa velt því mikið fyrir sér fyrir tímabilið hvort uppskeran gæti orðið svona góð í upphafi móts hjá Aftureldingu en liðið hefur unnið átta af fyrstu níu leikjunum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert