Flottur sigur á Austurríki í fyrsta leik

Karen Knútsdóttir skoraði fimm mörk í leiknum en var tekin …
Karen Knútsdóttir skoraði fimm mörk í leiknum en var tekin úr umferð í seinni hálfleiknum. mbl.is/Golli

Ísland vann Austurríki, 28:24, í fyrsta leik sínum af þremur í forkeppni HM kvenna í handbolta, en leikið er í Færeyjum. Leikurinn var jafn nánast frá upphafi til enda en Ísland reyndist sterkari aðilinn á lokamínútunum.

Ísland er í riðli með Austurríki, Færeyjum og Makedóníu. Tvö efstu liðin komast áfram í undankeppni HM. Ísland mætir Færeyjum á morgun og Makedóníu á sunnudag.

Ísland byrjaði leikinn mjög vel og komst í 4:1 og 5:2 en Austurríki náði fljótlega að jafna metin. Staðan í hálfleik var 12:12 eftir frábært mark Birnu Berg Haraldsdóttur í þann mund sem flautan gall.

Austurríki hafði frumkvæðið framan af seinni hálfleik en munurinn á liðunum var aldrei meiri en 1-2 mörk. Birna kom Íslandi svo yfir af vítalínunni þegar tæpar 10 mínútur voru til leiksloka, og Ísland hafði betur á lokakaflanum. Þar munaði um Lovísu Thompson sem skoraði tvö mörk í röð og fiskaði víti í þriðju sókninni, á meðan íslenska vörnin hélt vel og Guðrún Ósk Maríasdóttir var örugg í markinu.

Mörk Íslands: Karen Knútsdóttir 5/1, Birna Berg Haraldsdóttir 5/2, Þórey Rósa Stefánsdóttir 4, Arna Sif Pálsdóttir 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3, Steinunn Hansdóttir 3, Rakel Dögg Bragadóttir 2, Lovísa Thompson 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1.

Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 16.

Ísland - Austurríki, 28:24

60. Leik lokið! (28:24) Frábær sigur Íslands í höfn. Stórt skref í átt að umspilinu um sæti á HM.

59. (27:23) Karen fiskar leikmann af velli. Þórey Rósa skorar svo úr hægra horninu! Þetta er í höfn, ég fullyrði það!

57. (26:23) Lovísa fiskar víti og Birna þrumar boltanum í hægra hornið. Þriggja marka munur!

56. (25:23) Lovísa bætir við öðru marki, úr vinstra horninu. Tveggja marka munur og rúmar fjórar mínútur eftir.

53. (24:22) Lovísa Thompson komin inn á og hún skoraði eftir glæsilegt gegnumbrot. Óhrædd í sínum fyrsta mótsleik.

51. (23:22) Sterk vörn hjá Íslandi síðustu mínútur og Guðrún Ósk ver langskotin vel. Birna kom Íslandi yfir af vítalínunni.

46. (20:21) Arna Sif kom Íslandi yfir en Austurríki jafnaði metin úr víti og komst yfir með hraðaupphlaupsmarki.

44. (19:19) Birna Berg með tvö mörk í röð, það seinna af vítalínunni, og hún jafnar metin fyrir Ísland.

41. (17:17) Þórey Rósa að jafna metin fyrir Ísland sem er manni færra eftir brottvísun Hildigunnar. Guðrún Ósk markvörður er tekin af velli þegar svo er, svo hægt sé að tefla fram fullri sókn.

39. (16:16) Leikstjórnandi Austurríkis, Sonja Frey, hefur reynst Íslendingum erfið og var að skora eftir gott gegnumbrot. Hrafnhildur Hanna jafnaði metin að nýju úr hraðaupphlaupi, rétt eftir að hafa skorað með bylmingsskoti úr skyttustöðunni.

35. (14:15) Austurríki var að komast í 15:14. Karen Knútsdóttir er tekin úr umferð í sóknarleik Íslands.

Hálfleikur. Ísland byrjaði leikinn mjög vel og lék sérstaklega góða vörn. Austurríki komst hins vegar betur inn í leikinn þegar á leið og jafnaði metin. Guðrún Ósk Maríasdóttir varði vel í marki Íslands, alls að minnsta kosti átta skot. Karen Knútsdóttir er markahæst með 4 mörk og Steinunn Hansdóttir næst með tvö.

30. Hálfleikur. (12:12) Birna Berg jafnaði metin með glæsilegu skoti í þann mund sem fyrri hálfleik lauk.

29. (11:10) Guðrún Ósk með góða markvörslu, Birna með frábæra línusendingu og Hildigunnur skorar sitt fyrsta mark.

27. (10:10) Karen með tvö mörk í röð fyrir íslenska liðið, eftir glæsileg gegnumbrot.

21. (8:9) Austurríki er komið yfir í fyrsta sinn og Axel tekur leikhlé. Sóknarleikurinn hefur gengið illa síðustu tíu mínúturnar. Birna er komin aftur inn á og Sunna í vinstri skyttuna. Hildigunnur kemur nú inn á línuna eftir leikhléið. Karen stýrir sóknarleiknum sem fyrr en Steinunn og Þórey Rósa eru í hornunum.

19. (7:7) Austurríki var að jafna metin úr hraðaupphlaupi, en fékk svo fyrstu brottvísunina í næstu sókn Íslands. Nú er að nýta sér það. Thea er komin inn á í stað Birnu Berg, sem náði sér ekki á strik í byrjun leiks.

15. (6:5) Steinunn gerði vel í að ná í víti í vinstra horninu en Petra Blazek varði það frá Karen. Hún hefur verið að verja ágætlega.

10. (5:2) Karen með fimmta mark Íslands, af vítalínunni eftir að brotið var á Örnu sem fékk frábæra sendingu frá Hrafnhildi Hönnu.

8. (4:1) Austurríki tekur leikhlé. Flott byrjun hjá íslenska liðinu sem er komið í 4:1. Lítið hefur reynt á Guðrúnu Ósk í markinu. Steinunn Hansdóttir skoraði fjórða markið úr hraðaupphlaupi.

7. (3:1) Rakel Dögg kom Íslandi yfir og Hrafnhildur Hanna bætti við þriðja markinu eftir snögga sókn í kjölfar sláarskots Austurríkis.

5. (1:1) Austurríki skoraði fyrsta markið, eftir að bæði lið höfðu verið að tapa boltanum í fyrstu sóknum sínum. Arna Sif Pálsdóttir jafnaði metin af línunni eftir sendingu Birnu.

1. Leikur hafinn!

0. Þá eru leikmenn mættir aftur út á gólf og verið að kynna þá til leiks. Skammt í að leikurinn hefjist.

0. Leikmannahópana má sjá neðst í fréttinni. Rut Jónsdóttir er í íslenska hópnum þrátt fyrir að hafa ekkert getað æft með liðinu í vikunni, en hún er að jafna sig eftir andlitshögg sem hún fékk í leik með Midtjylland í Danmörku.

0. Nokkuð er um forföll í íslenska hópnum. Steinunn Björnsdóttir og Heiða Ingólfsdóttir markvörður urðu að hætta við keppni vegna meiðsla. Thea Imani Sturludóttir og Guðný Jenny Ásmundsdóttir voru kallaðar inn í þeirra stað. Jenny lék síðast með landsliðinu fyrir þremur árum.

0. Þetta er fyrsti mótsleikur Íslands undir stjórn Axels Stefánssonar sem ráðinn var í sumar, en hann tók við liðinu af Ágústi Jóhannssyni. Axel stýrði Íslandi í tveimur vináttulandsleikjum í október; 33:23-tapi gegn Svíþjóð og 26:25-sigri gegn Slóvakíu.

0. Gott kvöld og verið velkomin í beina textalýsingu frá leik Ísland og Austurríkis í forkeppni HM kvenna í handbolta. Hægt er að sjá nýjustu upplýsingar í fréttinni með því að ýta á F5.

Ísland: Guðrún Ósk Maríasdóttir, Guðný Jenny Ásmundsdóttir, Arna Sif Pálsdóttir, Birna Berg Haraldsdóttir, Eva Björk Davíðsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Karen Knútsdóttir, Lovísa Thompson, Rakel Dögg Bragadóttir, Rut Jónsdóttir, Steinunn Hansdóttir, Sunna Jónsdóttir, Thea Imani Sturludóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Þórey Rósa Stefánsdóttir.

Austurríki: Petra Blazek, Melanie Hermann, Laura Bauer, Mirela Dedic, Katrin Engel, Sonja Frey, Romana Grausenburger, Martina Goricanec, Josefine Huber, Ines Ivancok, Patricia Kovacs, Kristina Logvin, Beate Scheffknecht, Johanna Schindler, Claudia Wess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert