Vignir markahæstur í Meistaradeildinni

Vignir Svavarsson skorar í landsleik.
Vignir Svavarsson skorar í landsleik. Ljósmynd/Foto Olimpik

Vignir Svavarsson, línumaðurinn reyndi, heldur áfram að gera það gott með Tvis Holstebro í Meistaradeild Evrópu í handknattleik en hann var aftur markahæsti leikmaður liðsins í dag þegar það sótti Nantes heim til Frakklands.

Vignir skoraði 7 mörk og hefur nú gert 15 mörk í tveimur síðustu leikjum Dananna í keppninni en hann var valinn í lið umferðarinnar í síðustu umferð þegar hann gerði átta mörk í sigri á Braga.

Nantes vann þó leikinn, 31:26, og er efst í D-riðlinum með 15 stig en Tvis Holstebro er í fimmta og næstneðsta sæti með 5 stig og á ekki möguleika á að komast áfram.

Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, og Wisla Plock frá Póllandi skildu jöfn, 24:24, í A-riðlinum. Kiel er með 9 stig eftir 9 leiki í fjórða sæti en Wisla er með 6 stig í sjötta sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert