Besti leikur Aftureldingar í vetur

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert

„Í síðari hálfleik lék Aftureldingarliðið einn sinn besta leik á keppnistímabilinu,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, glaður í bragði eftir 12 marka sigur á Stjörnunni, 29:17, á heimavelli í Olís-deild karla í handknattleik karla í kvöld. Afturelding vann síðari hálfleik, 16:6, og lék sér eins og köttur að mús að Stjörnumönnum eftir bærilega jafnan fyrri hálfleik.

Afturelding hefur þar með fjögurra stiga forskot í efsta sæti deildarinnar, er með 22 stig að loknum 15 leikjum.

„Upphafskafli síðari hálfleiks var afar vel leikinn af okkar hálfu. Allir þættir leiksins voru eins og best var á kosið. Markvarslan og vörnin var frábær og hraðaupphlaupin vel útfærð og keyrð af krafti. Þar á ofan var sóknarleikurinn agaður í þau skipti sem við stilltum upp,“ sagði Einar Andri sem tefldi fram vængbrotnu liði eins og í síðustu viðureignum.

„Menn bíða kannski eftir að við gefum eftir toppsætið en það er ekki á dagskrá hjá okkur. Þrátt fyrir allt þá erum við með öfluga stráka í liðinu þótt einhverja vanti um þessar mundir. En þeir sem eru heilir eru í góðu standi og geta leikið flottan handbolta eins og sást í kvöld,“ sagði sigurreifur Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert