Fimm marka sigur Eyjamanna

Agnar Smári Jónsson úr ÍBV reynir skot að marki Gróttu …
Agnar Smári Jónsson úr ÍBV reynir skot að marki Gróttu en Vilhjálmur Geir Hauksson er til varnar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Eyjamenn sigruðu Gróttu með fimm marka mun úti í Vestmannaeyjum í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld en lokatölur voru 29:24.

Theodór Sigurbjörnsson og Sigurbergur Sveinsson áttu flottan leik í liði ÍBV og skoruðu samtals sextán mörk. Sá síðarnefndi fór meiddur af velli undir lokin og óttast er að hann sé tognaður aftan í læri.

ÍBV er þá komið með 16 stig og fer í efri hluta deildarinnar, tímabundið í það minnsta. Grótta situr áfram í áttunda sætinu með 11 stig, tveimur stigum fyrir ofan Fram og Stjörnuna sem eru bæði að spila.

Gróttumenn fóru vel af stað en eftir að Eyjamenn jöfnuðu metin litu þeir aldrei til baka. Þeir voru þremur mörkum yfir í hálfleik og þar hafði markvarsla liðsins verið mjög góð þar sem Kolbeinn Aron Arnarsson var í banastuði. 

Ágúst Emil Grétarsson átti einnig frábæran leik í liði ÍBV en hann er enn í 3. flokki og var einn af sex 3. flokks strákum ÍBV sem komu við sögu í dag. 

Munurinn varð meiri og meiri það sem leið á síðari hálfleikinn og mestur var hann átta mörk í stöðunni 28:20 og 29:21. Gestirnir löguðu stöðuna undir lokin með þremur síðustu mörkum leiksins.

ÍBV 29:24 Grótta opna loka
60. mín. Leik lokið Þægilegur sigur Eyjamanna í dag. Voru betri allan tímann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert