Þrír háspennuleikir og eitt rótburst á EM

Tess Wester, markvörður Hollendinga, fagnar sigrinum á Frökkum ásamt liðsfélögum …
Tess Wester, markvörður Hollendinga, fagnar sigrinum á Frökkum ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Lokaumferðin í riðlum A og B fór fram í kvöld í lokakeppni Evrópumótsins í handknattleik kvenna sem fram fer í Svíþjóð. Það er óhætt að segja að spennan hafi verið mikil.

Í A-riðli sem leikinn er í Stokkhólmi tryggðu Spánverjar sér sæti í milliriðli með sínum fyrsta sigri á mótinu. Núverandi silfurverðlaunahafar fóru þá illa með spútniklið Slóveníu og unnu tólf marka sigur, 30:18, sem er sá stærsti frá upphafi í sögu þeirra á Evrópumóti.

Spánverjar fara í milliriðla án þess að taka með sér stig úr undanriðlinum.

Gestgjafar Svía voru aðeins þremur sekúndum frá því að fara upp úr undanriðlinum með fjögur stig og fullt hús, en Kristina Liscevic jafnaði fyrir Serba 30:30 í blálokin. Serbar höfðu frumkvæðið allan leikinn en áhlaup Svía undir lokin skiluðu þeim næstum sigri.

Serbar og Svíar fara áfram í milliriðil með þrjú stig, en Slóvenar eru á heimleið.

Katarina Krpez Slezak, fyrirliði Serba, nær ekki að stöðva Louise …
Katarina Krpez Slezak, fyrirliði Serba, nær ekki að stöðva Louise Sand sem var markahæst hjá Svíum með átta mörk. AFP

Háspennuleikir í Kristianstad

Í B-riðli sem leikinn var í Kristianstad sitja Pólverjar eftir, en hin þrjú liðin fara áfram með tvö stig hvert.

Báðar viðureignirnar voru æsispennandi. Þjóðverjar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins gegn Pólverjum og tryggðu eins marks sigur, 23:22. Það er ekki síst vegna frábærrar frammistöðu Clöru Woltering í marki Þjóðverja að liðið fer áfram með tvö stig.

Í hinum leik riðilsins unnu Hollendingar sigur á Frökkum í gríðarlegum baráttuleik, 18:17. Hollendingar voru fimm mörkum undir í hálfleik, 12:7, en héldu silfurhöfum Ólympíuleikanna í fimm mörkum í seinni hálfleik og uppskáru sigurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert