Aron ein af stjörnum HM

Aron Pálmarsson er ein af stjörnum HM samkvæmt heimasíðu mótsins.
Aron Pálmarsson er ein af stjörnum HM samkvæmt heimasíðu mótsins. Adam Jastrzebowski / Foto Olimpik

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er ein af stjörnum heimsmeistaramótsins sem fer fram í Frakklandi í janúar á næsta ári en hann er í áhugaverðu viðtali á heimasíðu mótsins í dag.

Hafnfirðingurinn öflugi hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu síðustu ár en hann hóf að leika með liðinu árið 2008, er hann var enn í FH. Ári síðar samdi hann við þýska risann Kiel, þar sem hann lék í sex ár.

Alfreð Gíslason var lærimeistari hans hjá Kiel en saman unnu þeir þýsku deildina fjórum sinnum, bikarinn tvisvar og Meistaradeild Evrópu tvisvar. Aron samdi við ungverska liðið Veszprém á síðasta ári en hann er á öðru tímabili sínu með liðinu.

Aron fer með íslenska landsliðinu á HM í Frakklandi í janúar en hann er sagður vera ein af stjörnum mótsins á heimasíðu keppninnar. Þar ræðir hann mótið en Philippe Gardent, fyrrum þjálfari París SG, talar einnig um hann.

Heimasíða mótsins velur einn leikmann í hverri viku fram að HM og kynna þar leikmenn sem vert er að fylgjast með. Aron var kynntur í dag.

„Það er alltaf gaman að taka þátt í stóru móti eins og HM. Ég held að þetta mót verði sérstaklega gott þar sem það er haldið í Frakklandi, þar sem mér líkar mjög vel við landið og á marga vini þarna sem ég hef leikið með,“ sagði Aron við heimasíðu mótsins.

„Markmið okkar á mótinu er að komast upp úr riðlinum og sjá svo hvað gerist. Það eru ekki slakir riðlar eða dauðariðlar í mótinu, við getum unnið öll liðin í riðlinum en við getum líka tapað fyrir þeim öllum.“

„Spánn er líklegasta liðið í riðlinum en svo erum við einnig með Slóveníu sem hefur leikið gríðarlega vel síðustu ár. Túnis er með mjög sterkt og hættulegt lið og við höfum auðvitað leikið oft gegn Makedóníu, sem er alltaf erfitt viðureignar. Ég veit hins vegar voðalega lítið um Angóla, sem er með okkur í riðli,“ sagði hann í lokin.

Hann getur rifið heilu varnirnar í sundur

Gardent, sem þjálfaði París SG frá 2012 til 2015, talar afar vel um Aron, sem hefur verið með fremstu handboltamönnum heims síðustu ár. Gardent þekkir aðeins til Íslands en hann vann HM með Frökkum er mótið var haldið hér á landi árið 1995.

„Aron er frekar óhefðbundin týpa af leikmanni. Hann er ekkert það stór og stæðilegur, langt frá því. Hann er töluvert minni í vexti en þessar klassísku varnarmenn í handbolta, en samt getur hann rifið heilu varnirnar í sundur. Hægri höndin á honum er mögnuð, hann getur sveiflað henni í allar áttir og varnarmenn eiga erfitt með að lesa skotin hans. Það er hans helsti hæfileiki,“ sagði Gardent.

„Hann er hættulegur þegar hann er með boltann, hvort sem hann er á hreyfingu eða ekki. Sumir leikmenn eru bara hættulegir þegar þeir eru á hreyfingu en hann er ekki einn af þeim. Hann er einnig með gott auga fyrir markinu og skilvirkur. Þegar hann sér tækifæri til þess að skjóta, þá nýtir hann sér það og gerir það vel.“

„Aron er kannski ekki besti varnarmaðurinn en hann er enn ungur og getur bætt það, sem og bætt ákvörðunartökur hvenær hann á að skjóta. Hann er svo hungraður í að skora stundum að hann klúðrar góðum tækifærum en svona er boltinn stundum. Hann hefur margoft unnið leiki með slíkum ákvarðanatökum.“

„Hann er alger leiðtogi í íslenska liðinu og í raun þegar liðið spilar án hans þá er þetta ekki sama liðið. Ísland er með marga frábæra leikmenn en þegar Aron er í liðinu þá getur liðið unnið öll lið í heiminum. Þegar liðið er hins vegar án hans, þá er sagan önnur,“ sagði hann í lokin.

Aron Pálmarsson á æfingu íslenska landsliðsins.
Aron Pálmarsson á æfingu íslenska landsliðsins. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert