„Ætla ekki að henda því spili á borðið“

Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar.
Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar. mbl.is/Eggert

„Þetta er ekki tilfinning sem maður vill láta minna sig á en í dag áttum við í miklum vandræðum og sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta var sanngjarn sigur,“ sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, eftir 29:19 tap gegn Haukum í dag en þetta var fyrsta tap þeirra í sex leikjum.  

„Í sókninni komum við ekki þeim aðgerðum af stað sem við vildum. Við vorum óöruggir og markvarslan var mjög ólík á liðunum en þetta var meira en þessi atriði. Liðið var ekki tilbúið í það stríð sem þarf til að vinna Hauka á heimavelli. Við þurfum að núllstilla okkur núna og klára þessa törn sem hefur verið með jákvæðni.“

Mikil meiðsli hafa verið að hrjá Akureyri undanfarið en Sverre ætlar ekki að nota það sem afsökun. 

„Já en ég ætla ekki að henda því spili núna á borðið, ég hef ekki gert það hingað til.“

Akureyri er í mikilli botnbaráttu og með 11 stig eins og Grótta og Fram á meðan Stjarnan er eina liðið með færri stig eða níu. 

„Við erum í þessari baráttu, það er bikarleikur í hverri umferð hjá okkur og við þurfum að vera tilbúnir í það í hvert einasta skipti sem við förum í leik. Þannig verður þessi barátta áfram og hún verður svona eftir jól. Það er fullt af bikarleikjum eftir,“ sagði Sverre að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert