Guðjón Valur fór á kostum

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 8 mörk í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði 8 mörk í kvöld. Ljósmynd/Foto Olimpik

Guðjón Valur Sigurðsson var markahæstur þegar meistarar Rhein-Neckar Löwen unnu útisigur á lærisveinum Rúnars Sigtryggssonar hjá Balingen, 33:28, í þýsku 1. deildinni í handknattleik í kvöld.

Guðjón Valur skoraði átta mörk fyrir Löwen, sem var tveimur mörkum yfir í hálfleik 17:15. Alexander Petersson komst ekki á blað fyrir Löwen, sem er á toppnum með 28 stig eftir 15 leiki eins og Flensburg.

Rúnar er með lærisveina sína í 14. sætinu með níu stig.

Ekkert gengur hjá Bergischer, en liðið er sem fastast á botninum eftir ósigur fyrir Flensburg, 32:29. Einu marki munaði í hálfleik, 15:14, og Flensburg hleypti andstæðingnum ekki nærri sér í seinni hálfleik.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer og Björgvin Páll Gústavsson stóð vaktina í markinu. Liðið er í botnsætinu með fimm stig.

Rúnar Kárason komst ekki á blað fyrir Hannover-Burgdorf sem tapaði heima fyrir Melsungen, 31:30, í hádramatík. Hannover var þremur mörkum yfir í hálfleik, 18:15, og staðan var 30:30 þar til á lokasekúndunum að Melsungen skoraði sigurmarkið.

Hannover er í sjöunda sætinu með 16 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert