Tíu marka sigur Hauka á Akureyringum

Andri Heimir Friðriksson brýst í gegnum vörn Akureyrar í dag.
Andri Heimir Friðriksson brýst í gegnum vörn Akureyrar í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar skelltu sér aftur upp í 2. sæti Olís-deildar karla í handknattleik í dag með afar öruggum 29:19 sigri á Akureyri, en leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Hafnfirðingar byrjuðu betur og komust í 5:2 í upphafi leiks og virtust þeir ætla að rúlla yfir andstæðinga sína frá Akureyri. Sóknarleikur Hauka gekk töluvert betur fyrir sig en hjá Akureyringum og voru þeir hvað eftir annað að skora auðveld mörk þar sem stórskyttur þeirra fengu nægt pláss til að athafna sig.

Eftir því sem leið á hálfleikinn komst Akureyri meira inn í leikinn og virtist sem Haukarnir hafi tekið fótinn af bensíngjöfinni. Að lokum skildu tvö mörk liðin að í hálfleik en þá var staðan 12:10 fyrir Hauka.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn mikið betur og eftir tíu mínútur af honum spiluðum var staðan orðin 19:11. Þann mun voru gestirnir aldrei líklegir til að vinna upp og sigldu Haukarnir sigrinum heim af miklu öryggi, 29:19.

Haukar eru með 20 stig í öðru sætinu, tveimur stigum á eftir Aftureldingu, en Akureyri er með ellefu stig eins og Grótta og Fram.

Fylgst var með gangi leiksins í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Haukar 29:19 Akureyri opna loka
60. mín. Garðar Már Jónsson (Akureyri) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert