Ómar Ingi markahæstur í Íslendingaslag

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Århus.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur hjá Århus. mb.is/Styrmir Kári

Það var Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í dag þegar Team Tvis Holstebro lagði Århus á heimavelli sínum, 25:22.

Vignir Svavarsson skoraði fjögur mörk fyrir Holstebro sem var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 12:10. Alls skoruðu fjórir leikmenn liðsins fjögur mörk en markahæstur var Kasper Emil Kildelund með sjö mörk. Egill Magnússon var ekki með.

Ómar Ingi Magnússon var hins vegar markahæstur hjá Århus í leiknum, en hann skoraði sex mörk. Sigvaldi Guðjónsson skoraði svo þrjú mörk og Róbert Gunnarsson önnur tvö fyrir liðið.

Fyrr í dag lögðu svo lærisveinar Arons Kristjánssonar hjá Aalborg lið SønderjyskE, 28:26. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði eitt mark fyrir Aalborg en Arnór Atlason er meiddur.

Aalborg er í toppsætinu með 22 stig eftir 14 leiki. Holstabro er í fjórða sætinu með 18 stig og Århus í því níunda með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert