Ótrúlegar lokasekúndur í sigri Frakka

Allison Pineau var hetja Frakka í kvöld.
Allison Pineau var hetja Frakka í kvöld. AFP

Fyrstu umferð er lokið í milliriðlum á lokakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik sem fram fer í Svíþjóð. Óhætt er að segja að dregið hafi til tíðinda en baráttan um sæti í undanúrslitum er gríðarlega hörð.

Í síðasta leik dagsins var heldur betur spenna þegar Frakkar unnu ótrúlegan sigur á Spánverjum, 23:22, og gerðu út um vonir Spánverja að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Spánverjar komu inn í milliriðilinn án stiga, en voru með yfirhöndina lengst af í leiknum. Allison Pineau skoraði hins vegar tvö mörk á síðustu átján sekúndunum fyrir Frakka og tryggði sigurinn, 23:22. Hreint ótrúlegar lokasekúndur.

Pineau var markahæst hjá Frökkum með níu mörk, en hjá Spánverjum skoraði Nerea Pena fimm mörk.

Kristina Liscevic og stöllur í sókn Serbíu komust lítt áleiðis …
Kristina Liscevic og stöllur í sókn Serbíu komust lítt áleiðis gegn Þjóðverjum. AFP

Þjóðverjar í engum vandræðum

Þjóðverjar voru í engum vandræðum með Serba í fyrsta leiknum og unnu að lokum öruggan sigur, 26:19. Sókn Serba var skelfileg í leiknum og Clara Woltering átti enn einn stórleikinn í marki Þjóðverja. Þrátt fyrir að aðeins hafi munað fjórum mörkum í hálfleik, 14:10, voru Serbar aldrei nálægt því að ógna forskoti þeirra þýsku.

Þjóðverjar komu inn í milliriðilinn með tvö stig, en hafa nú blandað sér hressilega í baráttuna um sæti í undanúrslitum. Serbar komu inn í milliriðilinn með þrjú stig.

Gestgjafarnir þurftu að játa sig sigraða

Gestgjafar Svía eiga baráttu fyrir höndum ætli þeir sér að komast í undanúrslitin, en Hollendingar lögðu Svía í öðrum leik dagsins 33:30.

Helle Thomsen, sem er landsliðsþjálfari Hollendinga, mætti þar sínu gamla liði en hún var áður þjálfari Svía. Leikurinn var hörkuspennandi, en Hollendingar voru marki yfir í hálfleik 14:13.

Svíar náðu aldrei að jafna metin eftir hlé þrátt fyrir að Isabelle Gullden og Johanna Westberg hafi farið á kostum með átta og sjö mörk fyrir Svía. Cornelia Groot skoraði sjö fyrir Holland og Tess Wester stóð fyrir sínu í markinu eins og áður í þessu móti.

Hollendingar fóru með sigrinum upp fyrir Svía, sem tóku með sér þrjú stig í milliriðilinn, en hollenska liðið hefur nú fjögur.

Frakkar, Þjóðverjar og Hollendingar eru nú með fjögur stig í milliriðli 1, Serbar og Svíar hafa þrjú en Spánverjar ekkert.

Hollendingar fagna sigrinum á Svíum.
Hollendingar fagna sigrinum á Svíum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert